Siemens Solutions Partner

Þann 6. Október s.l. var skrifað undir „Siemens Solutions Partner“ samning milli Raftákns og Siemens. Þessi samningur er vottun frá Siemens og einungis veitt samstarfsaðilum sem uppfylla þeirra kröfur um þekkingu og færni í lausnum á sviði sjálfvirknivæðingar.

Svona samningur opnar ýmsa möguleika fyrir Raftákn að taka að sér verkefni bæði hérlendis og erlendis.

Fyrirtækið er ákaflega stolt af starfsmönnum sínum og telur þetta staðfestingu á því að mikil þekking, færni og reynsla býr í mannauði þess. Árni V. Friðriksson undirritaði samninginn fyrir hönd Raftákns. Á myndinni tekur Árni við samningnum frá Sigurði R. Jónssyni fulltrúa Smith og Norland sem er umboðsaðili fyrir Siemens á Íslandi. 

 

Forsaga málsins er sú að 17-19 ágúst var íslenskum verkfræðistofum gefinn kostur á að senda fulltrúa, einn eða fleiri, til að þreyta próf á vegum Siemens í Step7, SIMATIC Net, WinCC og WinCC Flexible. Prófið er eitt af skilyrðum til að verða samstarfsaðili Siemens í útfærslu lausna á sviði sjálfvirknivæðingar.

Þrír fulltrúar frá Raftákni ásamt fulltrúum þriggja annarra verkfræðistofa þreyttu prófið.  Raftákn náði fullnægjandi árangri og er þar með fyrst íslenskra verkfræðistofa til að verða „Samstarfsaðili Siemens á sviði sjálfvirknivæðingar“ eða „Siemens Solutions Partner. Automation“

Þeir sem þreyttu prófið fyrir Raftákn voru, Friðgeir B. Valdimarsson, Hans L. Karlsson og Jóhannes Sigmundsson.